Snepaskóf (fræðiheiti: Parmelia saxatilis) er tegund fléttna af litskófarætt. Hún er mjög algeng á Íslandi.[1]
Snepaskóf hefur stórt þal, 10-20 cm eða jafnvel meira, þar sem efra borðið er grátt eða grábrúnt með aflöngum raufum og netlaga hryggjum. Þalið er oft nær alþakið litlum sívölum snepum sem eru svartir í endann og brotna auðveldlega af fléttunni.[1]
Snepaskóf vex aðallega á klettum en stundum á trjábolum. Hún er algeng um allt land frá láglendi upp í 900 metra hæð, bæði við ströndina og inn til landsins.[1] Snepaskóf getur verið með algengustu fléttum í sumum vistgerðum, til dæmis í lyngmóavist á láglendi.[2] Á Íslandi er snepaskóf algengasta tegundin sem finnst í nábýli við skeggburkna[3] sem er í útrýmingarhættu hér á landi.[4]
Snepaskóf var áður nefnd litunarmosi og var notuð til litunar á sama hátt og skyld tegund, litunarskóf.[1]
Snepaskóf hefur verið notuð til að fylgjast með brennisteins- og flúormengun frá stóriðju á Grundartanga.[5] Seyði unnið úr snepaskóf hefur sýnt veiruhamlandi virkni gegn RS-kvefveirum og herpesveirunum HSV1 og HSV2. Talið er að virknin sé vegna salazinsýru sem fléttan inniheldur.[6]
Snepaskóf inniheldur nokkur þekkt fléttuefni: atranórin, salazinsýru, consalazinsýru, lóbarinsýru og prótócetrarsýru.[1]
Þalsvörun snepaskófar er K+ barkarlag gult en miðlag rautt, KC-, C-, P+ miðlag laxagult.[1]
Í Íslandi hefur ein sveppategund fundist sem sýkur á snepaskóf, tegundin Abrothallus parmeliarum. Hún finnst á Suðurlandi og Austurlandi.[7]
Snepaskóf (fræðiheiti: Parmelia saxatilis) er tegund fléttna af litskófarætt. Hún er mjög algeng á Íslandi.