Broddfura (fræðiheiti Pinus aristata), einnig kölluð broddafura, er meðalstórt barrtré af þallarætt. Tréð verður 5–15 m hátt og ummál bols allt að 1,5 m. Nálarnar eru fimm 2,5 til 4 sm langar. Könglar eru 5-10 sm langir og 3-4 sm breiðir þegar þeir eru lokaðir og eru þeir fjólubláir í fyrstu en gulna seinna. Broddfura á sín náttúrulegu heimkynni hátt til fjalla í 2500-3700 metra hæð í Colorado, Nýju Mexíkó og á takmörkuðu svæði í Arizóna.
Broddfura er langlíft tré. Elsta þekkta broddfura vex hátt í fjöllum Black Mountain í Colorado í Bandaríkjunum og er hún talin um 2480 ára en þó er sjaldgæft að broddfurur verði yfir 1500 ára gamlar.
Broddfura vex hægt og hentar sem garðtré fyrir litla garða á norðlægum slóðum. Nafnið er tilkomið vegna brodda á könglum hennar.
Skyldar tegundir broddfuru eru Pinus balfouriana og Pinus longaeva. Sú síðarnefnda er meðal elstu þekktra lífvera heims, rúmlega 5000 ára gömul.