dcsimg
Image de Crabe royal du Kamtchatka
Life » » Animaux » » Arthropodes » » Multicrustacea » Malacostraca » » Decapoda » » Lithodidae »

Crabe Royal Du Kamtchatka

Paralithodes camtschaticus (Tilesius 1815)

Rauði kóngakrabbi ( islandais )

fourni par wikipedia IS

Rauði kóngakrabbi, Paralithodes camtschaticus er tegund af kóngakrabbaætt og er algengastur í Kyrrahafinu. Hann getur orðið mjög stór og er talinn skaðvaldur fyrir lífríkið í kring og er mikið veiddur.

Lýsing

Rauði kóngakrabbinn er alsettur göddur svipað og gaddakrabbinn (Lithodes maja) sem er skyldur honum og finnst við Ísland. Kóngakrabbinn getur orðið allt að 10 kg og 25 cm að breidd en kvendýrin eru smærri eðu um 5 kg og 19,5 cm að breidd. Þetta á við um elstu dýrin sem geta orðið 20-30 ára gömul. Rauði kóngakrabbinn hefur 5 pör leggja, fyrsta parið eru klær, þrenn pör eru fætur en síðasta fótaparið notar krabbinn til að hjálpa við í mökunarferlinu og notar hængurinn þá leggina til að dreifa sviljunum yfir kynfæri kvendýrsins. Kóngakrabbinn er kaldsjávardýr og þolir hitastig á bilinu -1,6°C til 18°C en kjörhitastig hans er í kringum 4-6°C. Krabbinn finnst frá nokkurra metra dýpi niður á allt að 500 m dýpi. Yngri ókynþroska dýr halda sig fyrsta árið í þara og grjóti meðan eldri dýr kjósa að halda sig á meira dýpi á mjúkum botni. Kóngakrabbinn verður kynþroska 7 ára að meðaltali og eru karldýr 12 cm að breidd og kvendýr 9 cm að breidd. Kóngakrabbinn hrygnir á hverju ári og getur hrygnt frá 43.000-500.000 eggjum í einu. Kvendýrið gengur með eggin í um 11 mánuði áður en þau klekjast seint á vorin. Kvendýrin hafa hamskipti rétt áður en þau hrygna og þarf skelin að vera mjúk til að þau geti hrygnt. Karldýrið frjóvgar svo hrognin þegar hrygningin á sér stað og þegar því er lokið fara dýrin aftur á meira dýpi á fæðuslóðir.

Fæða

Fæða kóngakrabba er mjög fjölbreytt. Á fyrstu mánuðunum nærist hann á plöntu- og dýrasvifi. Þegar hann er 2-4 ára þá nærist hann á smáum dýrum sem lifa á sjávarbotninum. Fullorðnu dýrin eru því sem næst alætur. Þau éta orma, skeljar, snigla, krossfiska, ígulker, önnur krabbadýr, fisk og fleira

Útbreiðsla

Upprunaleg heimkynni kóngakrabba er að finna í Beringshafi og við Aleuta eyjar allt að suður Japanshafi, við Alaska flóa, við Okhotskahaf og meðfram Kamchatskaskagans, milli Beringshafs og Okhotskahafs. Svæðið norðan landamæra Noregs og Rússlands við Barentshaf eru hinsvegar innrásarsvæði hans. Hann var fyrst fluttur í Barentshafið af rússum í kringum 1930 en sú tilraun mistókst. Það var ekki fyrr en 1960-1969 þegar fluttir voru í kringum 10.000 kóngakrabbar, eins til þriggja ára og um 3.000 stóra krabba, sex til sextán ára sem það tókst. Það var svo staðfest í kringum 1978 að krabbinn hafi náð fótfestu. Síðan þá hefur bæði verið litið á hann sem skaðvald og verðmæta nytjategund. Kóngakrabbinn hefur verið að breiðast út um Atlantshafið og var nýlega veiddur við suðurstrendur Íslands.

Veiðar

Rauði kóngakrabbinn er mikið veiddur við Noreg og Alaska og gilda strangar reglur um veiðarnar. Hann þarf að vera á vissum aldri, vera að lágmarksstærð 15,0 cm, skjaldbreidd 13,7 cm og er bara heimilt að veiða karldýr. Veiðitímabil er snemma október til loka árs og er holdafylling kóngakrabbans hvað mest á því tímabili. Kvóti í Noregi er miðaður við fjölda veiddra dýra en í Alaska er hann miðaður við tonnafjölda. TAC (Total Allowable Catch) fyrir árið 2013 í Alaska voru tæp 4000 tonn en við Noreg hefur það verið á milli 900 og 1200 tonn. Rauði kóngakrabbinn er veiddur í gildrur en hann fæst einnig mikið sem meðafli á línu- og netaveiðum. Norðmenn nota litlar gildrur og er bannað að nota þær á innan við 100 m dýpi til að koma í veg fyrir veiðar á kröbbum sem hafa ekki náð tiltekinni veiðistærð. Í Alaska eru hinsvegar notaðar mjög stórar gildrur, en þær geta vegið allt að 300-350 kg og oftast er notast við síld eða þorsk sem beitu. Kóngakrabbinn hefur verið ofveiddur í mörg ár þrátt fyrir strangar reglur og eftirlit og á hann enn eftir að jafna sig á mörgum svæðum.

Markaðir og vinnsla

Rauði kóngakrabbinn er verðmæt auðlind og eru gerðar miklar kröfur um góða meðhöndlun hráefnis bæði á sjó og landi. Á sjó er hann soðinn, glasseraður og frystur. Á landi er hann soðinn heill eða tekinn í sundur og seldur í klösum, þá er krabbinn klofinn í tvennt og holdið fylgir löppunum og klónum. Einnig er krabbinn seldur ferskur og stundum lifandi á markaði. Vöruframboðið fer allt eftir kröfum markaðar og eru helstu markaðir fyrir krabbakjöt Bandaríkin og Japan sem eru með samanlagt um 60% af öllum innflutningi á krabbakjöti en einnig fer lítillega á Evrópumarkað. Verð á kóngakrabba er hátt eða 16$/lb en verðið hefur sveiflast mikið milli ára vegna framboðs og var það til dæmis 23$/lb árið 2012.

Umræða

Rauði kóngakrabbinn er talinn vera mikill skaðvaldur fyrir lífríkið í kringum hann og getur hann ógnað mörgum fiskistofnum hér við land ef hann berst til Íslands. Sumir telja að hann geti ekki þrifist hér við land vegna hitastigs sjávar en hann var nýlega veiddur við suðurland á helsta humarsvæði Íslands. Ef hann nær fótfestu og dreifir sér í kringum landið gæti það borið með sér skaðræðisáhrif fyrir ýmsa stofna vegna þess að hann étur nánast allt og ber einnig með sér sníkjudýr sem getur valdið miklu brottfalli hjá tegundum eins og þorski. Það væri þá hægt að halda honum niðri með því að leyfa fjálsar veiðar og verðlauna veiddan afla til að vernda lífríkið í kringum Ísland.

Heimildir

(http://www.fisheries.no/ecosystems-and-stocks/marine_stocks/shellfish/red_king_crab/#.VDGXxyl_uyM) (http://www.fishchoice.com/buying-guide/red-king-crab) (http://staff.unak.is/hreidar/Skjol/Sumarverkefni_2010_Krabbar_Halldor.pdf) (http://icesjms.oxfordjournals.org/content/early/2013/09/06/icesjms.fst126.full) (http://fvnorthwestern.com/the-social/alaskan-fishing-101/)

Tilvísanir

licence
cc-by-sa-3.0
droit d’auteur
Höfundar og ritstjórar Wikipedia
original
visiter la source
site partenaire
wikipedia IS

Rauði kóngakrabbi: Brief Summary ( islandais )

fourni par wikipedia IS

Rauði kóngakrabbi, Paralithodes camtschaticus er tegund af kóngakrabbaætt og er algengastur í Kyrrahafinu. Hann getur orðið mjög stór og er talinn skaðvaldur fyrir lífríkið í kring og er mikið veiddur.

licence
cc-by-sa-3.0
droit d’auteur
Höfundar og ritstjórar Wikipedia
original
visiter la source
site partenaire
wikipedia IS